loading

Augnablik...

Aðstaðan okkar

Aðstaðan okkar

Kenningar, hugmyndafræði og aðferðir Vinasetursins fjalla um og miða að því að veita barninu traust umhverfi, hlýju og nánd.

Það er gert með því að skapa rólegt og notalegt andrúmsloft, hrósa og hvetja barnið á allan hátt og nota jákvæða sálfræði. Einnig er mikilvægt að notast við virka hlustun og samtal, bjóða upp á hollan og góðan mat, skemmtilega og margbreytilega hreyfingu og verkefni og leiki við hæfi. Nægur svefn og hvíld er einnig nauðsynleg til þess að hvert barn finni stöðugleika og njóti dvalarinnar sem allra best.

Að sjálfsögðu er farið eftir barnalögum og barnasáttmála um réttindi og aðbúnað barna og slíkt í hávegum haft.
Mikil áhersla er lögð á leikinn sem slíkan og tengslamyndun. Mjög góð aðstaða er fyrir börnin í húsnæði Vinaseturs og er þar rúmgóð hæð fyrir börn á aldrinum 6-11 ára með fjórum svefnherbergjum, fjórum baðherbergjum, matareldhúsi, föndureldhúsi, tveimur leikherbergjum, stór borðstofa þar sem gaman er að borða og auðvelt er að leika og svo er stór stofa. Þar eru dýnur og stærri leikföng til að stunda hreyfileiki, dans og leiki sem krefjast grófari hreyfinga. Einnig er svo ágætlega útbúið fatahol, þvottahús og geymsla til að geyma snjóþotur og útileikföng.

Í kringum húsnæðið höfum við kost á skemmtilegri útiveru en þar er verönd með garðhúsgögnum, heitum pottum, stórum leikvelli og yndislegur garður. Stutt er í sundlaug og aðra afþreyingu

Húsnæði Vinasetursins er stutt frá Höfuðborginni í fallegu úthverfi. Öll nauðsynleg þjónusta er í fimm mínútna fjarlægð. Svipuð vegalengd er frá flestum stöðum á Suðvesturlandi og getur heimilið auðveldlega tekið á móti börnum frá Borgarnesi, Akranesi, Mosfellsbæ, Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Vogum, Njarðvík, Keflavík, Sandgerði, Garði, Grindavík, Þorlákshöfn, Eyrabakka, Stokkseyri, Hveragerði, Selfossi, Hellu, Hvolsvelli og öllum sveitunum í kringum þessa frábæru staði. Hlökkum til að sjá ykkur!